154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[17:39]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Þetta er nefnilega svolítið skemmtilegt og aftur komum við að þessu sem hann nefndi með þennan flata niðurskurð og einhvern veginn excel-skjalið. Það má margt gott um excel segja en excel er ekki pólitík. Við þurfum pólitík inn í þessa umræðu og þessa vinnu.

Varðandi þetta með hvar hægt er að auka tekjumyndunina, eins og hv. þingmaður nefnir, þá langar mig að bæta við þá vídd líka, og ég kom inn á það aðeins í ræðu minni, að það er þessi nagandi tilfinning fólks fyrir óréttlætinu sem felst í því hversu auðvelt það er að sækja meiri skattpeninga á launaseðilinn en hversu mikil varðstaðan er um auknar tekjur, t.d. þegar kemur að nýtingu þjóðarauðlindanna. Ég er reyndar á þeirri skoðun að við stöndum á ákveðnum tímamótum þar. Við höfum áratugum saman verið að ræða sjávarauðlindina, fiskveiðistjórnarkerfið, og nú er svo komið að það hefur raungerst sem margir spáðu, að aðrar náttúruauðlindir eru orðnar gríðarlega eftirsóttar og þar með verðmætar í peningalegu tilliti. Við verðum að klára umræðuna um hvernig við ætlum að gera þetta vegna þess að við getum staðið hér og sagt að við séum óendanlega rík af náttúruauðlindum, það er rétt, en ættum við ekki að segja: Við ætlum að láta allan almenning njóta þess hversu óendanlega rík við erum af náttúruauðlindum. Mér finnst alltaf vanta þann hluta í, að við klárum þetta almennilega. Ég tel að við séum á tímamótum í þessari umræðu núna vegna þess að hún skiptir svo miklu máli að svo mörgu leyti. Ég átta mig á því að hv. þingmaður var líka að spyrja um breiðu millistéttina og svo þessa hátekjustétt, hvernig skattbyrðinni yrði dreift þar. (Forseti hringir.) Við þurfum kannski aðeins að taka samtalið, það er verið að reka mig hér úr pontu.